ABC-börnin okkar

David

Veronica

Manisha

Akhila

Akhila fæddist 7. október árið 1994 á Indlandi. Foreldrar hennar teljast til hinna svokölluðu stéttleysingja og eru því mjög fátækir og ólæsir. Fjölskylda hennar þjáist einnig af ýmsum sjúkdómum tengdum óhreinu vatni. Sjálf fær Akhila stundum malaríu. Þau búa í moldarkofa með stráþaki og hafa hvorki rafmagn né hreinlætisaðstöðu. Þau sofa á gólfinu og hafa hvorki ábreiðu né flugnanet. Þau elda á opnum eldi fyrir utan kofann og þurfa að sækja vatn í borholu.

Á Indlandi hefur um margar aldir ríkt ströng stéttaskipting þar sem hver og einn er fastur í sinni stétt. Það er kannski gott og blessað ef þú ert svo heppinn að fæðast inn í efri stétt. En þeim 200 milljónum Indverja sem teljast til stéttleysingja er svo til undantekningarlaust ásköpuð ævilöng fátækt á jaðri þjóðfélagsins, enda er oft talað um þá sem hina ósnertanlegu.

Þökk sé góðu fólki eins og því sem stendur að ABC-barnahjálpinni eygir Akhila einhverja von. Ólíkt foreldrum sínum gefst henni kostur á að mennta sig, nokkuð sem við Íslendingar teljum sjálfsagðan hlut. Peningarnir sem Stoðkennarinn lætur renna til ABC fara að hluta til til fjölskyldu Akhilu. Fyrir vikið þarf Akhila ekki að stunda daglega vinnu og getur þess í stað stundað nám á Heimili litlu ljósanna.

Heimili litlu ljósanna er í Gannavaram sem er í um 20 km fjarlægð frá borginni Vijayawada í Andhra Pradesh á suð-austurströnd Indlands. Heimilið var stofnað árið 1992 af kristnum Indverja sem gat ekki lengur horft upp á heimilislaus börn þjást á götunum. Með hjálp íslenskra stuðningsaðila ABC búa nú um 2500 börn á Heimili litlu ljósanna. Auk námsins fær Akhila þar læknishjálp og hressingu.

Nánari uppýsingar um ABC-barnahjálpina má nálgast á vefsíðu þeirra abc.is. Íslendingar geta stutt fátæk börn um allan heim með ýmsum hætti í gegnum samtökin. Sum börn þurfa bæði heimili og menntun, önnur búa þegar með foreldrum sínum, oft við afar bágar aðstæður, og fá auk náms læknishjálp og eina máltíð á dag.
Til baka