ABC-börnin okkar

David

Veronica

Manisha

David

David er fæddur árið 1994 í Kenýa. Þegar hann var aðeins fimm ára lést faðir hans. Í framhaldi flutti fjölskyldan í sveitina vegna pólitískra ofsókna. En einn daginn varð David viðskila við móður sína og stóð uppi einn og umkomulaus. Það var honum til happs að gott fólk fór með hann til ABC barnahjálpar. Seinna meir fann amma Davids hann í umsjá starfsfólks ABC og hefur hann búið hjá henni síðan en sótt nám í skóla samtakanna.

Amma Davids er afar fátæk og gæti varla framfleitt sér og honum ef ekki kæmi til hjálp frá ABC. Þau búa í steinhúsi með einu herbergi og steingólfi. Þau elda á hlóðum og deila salerni með nágrönnum. Hjá ABC fær David ekki aðeins tækifæri til að mennta sig heldur einnig máltíð einu sinni á dag.

David er lýst sem kurteisum dreng og stefnir hann á að verða læknir. Og án efa er ekki vanþörf á hæfileikaríkum læknum í Kenýa. Landið, sem á landamæri að Eþíópíu, Sómalíu, Tansaníu, Úganda og Súdan, fékk sjálfstæði frá Bretum 1963. Á ýmsu hefur gengið síðan þá enda reyndist það mörgum Afríkuríkjum erfitt að ná fótfestu eftir áratuga kúgun nýlenduveldanna. Spilling og ofbeldi hefur því miður sett mark sitt á of mörg ríki álfunnar. En við skulum vona að gott fólk eins og David muni leggja sitt af mörkum til að skapa betra þjóðfélag.

Nánari uppýsingar um ABC-barnahjálpina má nálgast á vefsíðu þeirra abc.is. Íslendingar geta stutt fátæk börn um allan heim með ýmsum hætti í gegnum samtökin. Sum börn þurfa bæði heimili og menntun, önnur búa þegar með foreldrum sínum, oft við afar bágar aðstæður, og fá auk náms læknishjálp og eina máltíð á dag.
Til baka